Viltu fá heimsókn
Hefðir þú viljað fá heimsókn frá okkur í félaginu þegar þú misstir þitt barn?

Nei

 

 

 

Barnið dáið, hvað svo?

Ef missir er fyrir 22. viku meðgöngu er talað um fósturlát skv. alþjóðlegum stöðlum. Ef missir er eftir 22. viku meðgöngu er talað um andvana fæðingu.

Fósturlát 12-22 vikur meðgöngu:
Landspítalinn tekur að sér, í samvinnu við Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma að sjá um bálför og jarðsetningu í duftreit í Fossvogskirkjugarði. Ef foreldrar hins vegar óska eftir sér jarðsetningu í fósturkistu, eða jarðsetningu guftkers, þá hafa þeir samband við útfararstjóra og þá er oftast prestur með athöfn, annað hvort í kapellu eða við gröfina.

Andvana fæðing 22-40 vikur:
Oftast eru andvana fædd börn jarðsett í sérstakri kistu, sem er sett í leiði ættingja. Einnig eru þau, sum hver, jarðsett í eigin leiði og þá jafnvel tekin frá 2 leiði við hliðina. Börnin eru oftast nefnd og er nafnið skráð í kirkjubók ef prestur er með athöfn. Oftast er sameinað á sama degi, að vera með kistulagningu og útför.

Leitast er við að styðja foreldra og systkini barnanna. Stuðningshópar eru starfandi og ennfremur hægt að koma foreldrum í samband við aðra foreldra í sömu aðstöðu.2 bæklingar eru í dreifingu af hálfu Landsspítalans “Gleym-mér-ei” og “Að missa barnið sitt”.

Það er mjög mikilvægt að foreldrarnir hafi útför/bálför barnsins síns eftir þeirra eigin óskum og þörfum. Sama gildir um alla þætti þess þegar foreldrar kveðja dáið barn sitt. Foreldrar verða að fá næði og tíma til að hugsa þetta allt út frá sínum eigin óskum, tilfinningu og menningarbakgrunni. Það er engin ein leið besta leiðin þegar kemur að þessum efnum og það virða allir.

Það er oft erfitt að tilkynna lát barnsins síns sem að vinir og vandamenn vænta. Gott ráð er að senda kort þar sem að tilkynnt er um fæðingu og lát barnsins. Þannig er kannski komið í veg fyrir að þurfa að hringja í alla með þessar sorglegu fréttir og hægt að vænta heimsóknar, blóma eða símtals frá þessum aðilum sem að auðveldar foreldrunum á þessum erfiðu tímum.

Eftir lífsreynslu sem þessa tekur við erfiður tími sorgarferlisins. Foreldrarnir eru komnir heim af spítalanum og átta sig nú á því að þurfa að lifa lífinu áfram án barnsins sem þau áttu von á og elskuðu svo mikið. Það er erfitt að koma heim og sjá kommóðuna með fötunum í og barnaherbergið tilbúið og mikilvægt að foreldrarnir fari í gegnum það allt saman. Ekki er gott að tæma allt og afmá öll verksummerki barnsins áður en móðirin kemur heim þó svo að það sé meint á góðan hátt. Það er hluti af ferli foreldranna við að kveðja barnið sitt. Þegar foreldrarnir eru tilbúnir munu þau taka dót barnsins saman.

Upplifunsorgarinnar er mismunandi hjá fólki og getur breyst frá degi til dags. Mikilvægt er að leyfa sér að syrgja, gefa sér tíma til þess og byrgja ekki sorgina inni.Einnig er mikilvægt að taka við allri hjálp sem býðst hvort sem hún er í formi haglegrar hjálpar eða á tilfinningasviðinu og nauðsynlegt er að leita sér faglegrar hjálpar ef þörf þykir. Á síðunni okkar um lesefni er að finna ýmislegt tengt sorg og barnsmissi og gott að geta lesið sér til um sorgarferlið.

 

© 2002 Litlir Englar   •   litlirenglar@litlirenglar.is